Birta stendur fyrir stuðningshópum, þar sem einstaklingar, foreldrar, pör og eftir atvikum afar og ömmur, systkin og aðrir, geta komið saman í smærri hópum (8 – 12 eftir því hvernig hópurinn er samansettur). Í hópunum ríkir algjör trúnaður um allt sem þar fer fram og enginn þarf að tjá sig nema viðkomandi sé tilbúinn til þess.
Tveir stjórnendur eru í hverjum hópi og í flestum tilvika búa þeir yfir reynslu af barnsmissi og/eða hafa menntun á sviði sálgæzlu.
Þegar barn eða ungmenni fellur frá þá hrynur veröldin í kring um foreldra og aðra aðstandendur. Markmið þessara stuðningshópa er að vera til staðar fyrir þau sem missa, leitast við að miðla af þeirri reynslu sem hvert og eitt býr yfir og þiggja um leið stuðning annarra.
Einstaklingarnir í stuðningshópunum leitast við ná því að meðtaka þá staðreynd að þó búið sé að reisa mest af rústunum við aftur þá verður heimurinn aldrei eins og hann var – heimsmyndin hefur breytzt varanlega.