Það má tala um sorg í dag árið 2016

Óumflýjanlega þarf ég að sættast við missinn, en stundum til að lifa af hef ég afneitað staðreynd dauðans. Ég reyni að horfa svo á að ég er aðeins 3 ára í minni sorg. Þráin eftir barninu mínu hverfur eflaust aldrei, en ég hef oft beitt sjálfa mig mikilli hörku.

Ég grét í fyrsta sinn fyrir framan yngri son minn, fyrir stuttu síðan. Hann bleytti þvottapoka og ég hélt áfram að gráta meðan hann settist rólegur í sófan og hafði litlar áhyggur af þessu.
Mest af öllu í lífinu þarf ég að berjast við sjálfa mig, auðvitað með guðs hjálp.
Það hefur veitt mér oft styrk að fá að skrifa hér út í alheiminn.
Ástin lifir í hjartanu og með tímanum verður maður sjálfur minna dofinn.
Fyrsta árið reynir maður hreinlega bara að lifa af, og hjá mér hefur það tekist misvel.
Ég er oft glöð þrátt fyrir allt og gleymi mér í andartakinu.
Margt hefur breyst og margir vinir og fjölskyldumeðlimir fjarlægst sem er kannski eðlilegt því að ég hef einangrað mig, verið bitur, reið og gert mörg mistök.
En áfram heldur gangan. Það má tala um sorg í dag árið 2016.

Skrifað 22.05.2016.

Tárin sem ég geymi inni í mér eru að brjótast út. Guð hvað ég sakna hans mikið, svo mikið, kærleikurinn hans þakklæti og gleði. Ást og friður. Sum tímabil eru bara erfiðari en önnur allir þessir dagar, afmæli skírnardagur, dánardagur, dagurinn sem hann var jarðsunginn og svo blessaðir páskarnir núna. Mig langar að sökkva ofan í jörðina.

Skrifað 30.03.2016.

Ég man það að Blængur var aldrei orðinn of stór til að kúra í faðmi mínum. Guð hvað ég þakka fyrir það. Faðmur móður er alltaf þarna þó þið verðið stór. Sigtryggur Kristófer á líka minn faðm. Þegar bróðir hans dó lá hann ofan á mér gjörsamlega og skynjaði minn missi, en hann gaf mér faðminn sinn og gerir enn og ég honum. BÖRN eru svo einstök og dýrmæt, ég gæfi mikið fyrir faðminn hans Blængs en hann er þarna ennþá inn í hjartanu. Ást sem börnin okkar gefa er svo falleg og skilyrðislaus. smá hugleiðingar kvöldsins

Skrifað. 18. 03 2016.

Elsku sonur minn, ég sé þig fyrir mér á fallegum stað þar sem Sigga amma og þú haldist í hendur. Ég held að heimurinn þarna hinu meginn sé hulinn mannlegum sársauka og þar sértu elsku Blængur minn, glaður og frjáls. Engin í heimi hér kemur í þinn stað, ekkert blóm, ekkert barn, engin önnur mannvera. Enda varst þú einstakur og gafst mér allt sem að móður getur óskað sér. Ég reyni að lifa áfram, stundum er það svo ófullkomið og ég sjálf svo ósköp mannleg. Þú sagðir við mig að ég væri besta mamma í heimi og ég sagði við þig að þú værir besti drengur í heimi. Ég læri að lifa á ný án þín á jörðinni okkar, og skil að tómleikinn er og verður alltaf hluti af mér þegar þú kvaddir þennan heim. Ég lifi fyrir mig, vinir hjálpa, fjölskylda hjálpar að gefa af sér, að vera vinur hjálpar, að vera móðir hjálpar, að vera hluti af heild hjálpar. En ekkert er eins og þú enda geri ég ekki þær kröfur á neinn hlut eða manneskju, sumt fólk heldur að eitthvað komi í staðinn en þannig er það bara alls ekki. Sorg mína ber ég mest þegar ég er ein, ég er ekki að tala mikið um sársaukann og hyldýpi tómarúmsins, en ég deili minningum mínum með þér, með öðrum, þá vel ég að tala um þig í gleði, hversu fyndinn þú varst, stríðinn og hugmyndir þínar og pælingar svo sérstakar, fyrir mér ertu alltaf til í Hjartanu. Okkar leiðir munu mætast einn daginn ég veit ekki hvenær og fæ ekki að velja hvenær. Það á enginn að koma í þinn stað það mundi ég ekki vilja. Núna óska ég þess að ég gæti haldið í hönd þína, ég óska þess reyndar oft og ímynda mér nálægð þína og lyktina af þér, faðm þinn og þig elsku sonur minn, stundum hugsa ég hvort þú stækkir þarna hinu meginn, sért orðin stór, ég óska mér að hafa þig. En til eru börn sem aldrei verða menn og sumar óskir rætast ekki. Mig langar oft svo margt að segja þér frá systkinum þínum ég veit að þú værir svo stoltur. Sorg og gleði eru systur tvær. Ég þakka fyrir allar minningar um þig og reyni að vera dugleg. Alltaf er ég þín Mamma þó að ég hafi verið með þig bara í láni.

Ég þakka það að hafa fengið þig í 12 ár gimsteinninn minn frábrugðinn öllum öðrum steinum jarðar, enda er enginn steinn eins.

Skrifað 27.01.2016

Ég á líka góða daga og stundir sem ég er þakklát fyrir, en ég nota fésbókina oft til þess að fá útrás fyrir sorg mína og minningar, það hjálpar mér eitthvað. Finnst eins og ég sé að deila sögu og tilfinningum mínum af Blæng Mikael með alheiminum.
Það hefur hjálpað mér að skrifa mig frá sorginni en þýðir samt ekki að ég sé á vonlausum stað það er bara eitthvað svo gott við að skrifa þetta frá sér eins og ég get.

08.01.2016.

sé þig ekki með augum mínum
sé þig með hjarta og sál minn
þrá mín eftir þér
sest svo oft að mér*
Hér á jörðinni okkar í desember
Horfin ertu augum mínum
ég sé þig samt í huganum mínum
Núna nálgast jólin
mig langar svo að sjá gleði þína
bros þitt og þennan dimma húmor þinn
horfa á þig leika þér
halda í hönd þína og Blængur þú ert
alltaf besti drengur í heimi
ég fæ þetta ekki skilið að hafa misst þig
þetta er ekki sanngjart
ég vil snúðinn minn

Skrifað 11.12.2015.

Mér finnst ég líka vera að opna farveg, að sorgin er raunveruleg staðreynd í lífi okkar margra. Svo lengi var bannað að tala og skrifa um hana, sú vanþekking er enn til staðar og mig langar að leggja mitt af mörkum að eyða því. Kærleikur. Ég þakka það að hafa fengið þig í 12 ár gimsteinninn minn frábrugðinn öllum öðrum steinum jarðar, enda er enginn steinn eins.Mig langar líka segja ykkur að ég er í stuðningshóp sem heitir Dagrenning og þar höfum við foreldrar talað saman um missinn. Hittumst og gerum ýmislegt. Borðum saman, spjöllum, og höfum farið í einu sinni á hótel Sigló og borðað saman, farið í pottinn og gist eina nótt. Það er einstaklega hjálplegt að vera hluti af hóp. Við höfum líkað farið saman í kirkjugarðinn.

 

 

Facebook
Instagram