Saga birtu

Birta – landssamtök foreldra/forráðamanna sem misst hafa börn/ungmenni skyndilega.

Verkefni samtakanna er að styðja við foreldra sem misst hafa börn og/eða ungmenni án nokkurs fyrirvara. Stuðningur verði í formi fræðslu á mánaðarlegum opnum húsum og hvíldardaga. Sjá einnig lög samtakanna hér á síðunni.

Þann 7. desember 2012 í Grafarvogskirkju, voru samtökin stofnuð og stofnfélagar á annað hundrað manns. Tilgangur samtakanna og markmið er að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu, fyrir syrgjandi foreldra og fjölskyldur þeirra. Einnig munu samtökin standa fyrir árlegum hvíldardögum fyrir foreldra/forráðamenn með endurnærandi hvíld að leiðarljósi. Hægt verður að fylgjast með starfi samtakanna á Fésbókarsíðunni Birta – landssamtök þar sem miðlað verður upplýsingum um stuðning, fræðslu og annað starf á landsvísu.

Á stofnfundinum greindi Lena Rós Matthíasdóttir, prestur, frá aðdraganda að stofnun samtakanna. Í starfi sínu hefur hún kynnst áfallasögu og sorg þeirra sem misst hafa börn og ungmenni og hefur sú reynsla nú leitt til stofnunar samtakanna. Pétur Emilsson sem missti dóttur sína af slysförum, tók einnig til máls á stofnfundinum og ræddi um mikilvægi þess að vinna með erfiðar tilfinningar í stað þess að byrgja þær inni. Þær væru í raun fjársjóður sem mikilvægt væri að opna fyrir og vinna með á jákvæðan hátt. Pétur og eiginkona hans stofnuðu Kærleikssjóð Stefnaníu G. Pétursdóttur og byggir sjóðurinn á sömu markmiðum og nýstofnuð samtök syrgjandi foreldra. Er það einlæg von þeirra hjóna að sjóðurinn megi verða landssamtökunum sterkur bakhjarl.

Á fundinum voru lög og markmið samtakanna samþykkt, en þau munu verða vettvangur foreldra/forráðamanna barna og ungmenna sem látist hafa skyndilega. Undir skyndilegt dauðsfall flokkast öll dauðsföll sem ekki gera boð á undan sér, hvort heldur sem orsökin er líffræðileg, viðkomandi hafi fallið fyrir eigin hendi eða annarra, horfið eða látist af slysförum. Samtökin munu ekki fylgja strangri aldursskilgreiningu, enda mikilvægara að skoða tengslamyndun foreldra og barna/ungmenna, en aldur hins látna.

Hægt er að skrá sig í samtökin með því að senda tölvupóst á netfangið: birtalandssamtok@gmail.com – Vinsamlega gefið upp fullt nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang. Einnig er gott að fá upplýsingar um barnið/ungmennið sem lést: Nafn þess, fæðingar- og dánardag.

Scroll to Top