Að halda áfram

Sérstakir dagar

Já – afmælisdagur kemur eins og áður þó nú sé afmælisbarnið ekki til staðar. Aðrar hátíðir koma einnig eins og jól, páskar, ferming og fleiri minningardagar. Nú hefur einn minningardagur bæst við þ.e. dánardagur.

Öllum þessum er erfitt að mæta en þeir verða ekki umflúnir. Kvíði sest að hjá okkur þegar þeir fara að nálgast. Undirbúðu þig eftir því sem þú getur og þú telur þig þurfa. Ef fjölskyldunni finnst hún þurfi að fara eitthvað burt þá gerir hún það. Þar gefst oft næði til að ræða líðan sína og tilfinningar. Ræða um þann sem látinn er, rifja upp minningar, hlæja og gráta.

Einnig getur fjölskylduna langað til að fá stjórfjölskyldu, vini og kunningja í heimsókn, þá undirbýr hún það. Muna að hafa samband við þá sem við kjósum að hafa hjá okkur á þessum tímamótum.

Minningar

Flest búum við svo vel að eiga ljósmyndir af látna ástvininum okkar. Varðveitum þessar myndir á þann veg sem hver og einn kýs. Myndirnar verða dýrmætari með árunum. Á hinum ýmsu minningardögum getur verið gott að taka þær fram, fletta í gegn um þær, minnast augnablikanna, ræða saman.

Varðveitum einnig muni sem hinn látni átti eða gerði og sem hafa tilfinningalegt gildi.

Engin tvö eða engar tvær fjölskyldur syrgja og minnast með sama hætti. Gott er að rifja upp atburði sem voru sameiginlegir og viðhalda þeim eftir því sem aðstæður og vilji eru til.

Facebook
Instagram