Fræðsla / Hugleiðingar

Blaðaviðtal

9. desember 2012, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður

Sólargeislar brjótast fram í frostinu og glampa á spegilsléttri Tjörninni. Í bakhúsi á Bjarkargötunni taka hjónin Pétur Emilsson og Sigrún Edda Sigurðardóttir á móti blaðamanni með þeim orðum að þar sé fullt hús af fólki sem vilji tala við hann, spyrja síðan hvort hann hræðist hunda og hleypa tveimur út. Þeir flaðra upp um blaðamann og hnusa forvitnir, spretta síðan úr spori á lóðinni, frelsinu fegnir áður en þeir eru kallaðir aftur inn.

Þar sitja þau saman við borðstofuborðið, Margrét Erla Benonýsdóttir, Sveinbjörn Bjarnason, Ásrún Harðardóttir og Konráð Halldór Konráðsson auk þess sem séra Lena Rós Matthíasdóttir gengur um stofuna í djúpum samræðum við einhvern á hinum enda „línunnar“. Kertaljósin loga og gestgjafarnir ganga á milli manna með te, kaffi og smákökur. Að blaðamanni undanskildum eiga allir sem hér eru tvennt sameiginlegt. Þau hafa öll misst barn og þau hafa sameinast um að stofna samtök fyrir foreldra barna sem hafa fallið skyndilega frá. Þau ætla að segja sögu sína, hvað gerðist, hvernig það mótaði þau og af hverju þau eru hingað komin? En áður vill séra Lena Rós útskýra tilurð samtakanna.

Fékk hjartastopp í jólabaðinu

„Frá árinu 2008 hef ég fengið til mín foreldra sem hafa misst börn og verið með sorgarhópa fyrir þá í Grafarvogskirkju. Strax í fyrsta hópnum sá ég að það yrði áskorun að vinna með hópinn af því að foreldrarnir voru á svo ólíkum stað. Þeir foreldrar sem höfðu misst börn vegna veikinda höfðu fengið undirbúningstíma, þeir höfðu átt þetta samtal við fjölskylduna og þeir höfðu fengið að kveðja barnið sitt. Hinir höfðu kannski fengið símhringingu einn daginn þar sem þeim var sagt að þeir myndu ekki sjá barnið sitt aftur lífs og í einstaka tilvikum fengu þeir kannski ekki einu sinni tækifæri til þess að kveðja líkamann af því að hann var svo illa leikinn.

Þetta er svo ólíkt varðandi alla úrvinnslu þannig að það kviknaði strax sú hugmynd að við yrðum að reyna að aðgreina þessa hópa með einhverjum hætti, þótt auðvitað sé hægt að vinna þetta saman að einhverju leyti, sorgin er sú sama, þessi söknuður og sári harmur. Munurinn liggur í því hvernig höggið lendir á þér, annaðhvort færðu högg við sjúkdómsgreininguna eða þegar barnið deyr og þá vantar aðlögunarferlið. Það þýðir að líkurnar á því að verða fyrir miklu áfalli sem leitt getur til áfallastreituröskunar margfaldast.“

Lena Rós ákvað að hún yrði að gera eitthvað og sá að hún þyrfti að fræðast nánar um þetta, menntaði sig í sálgæslu og áfallafræðum og safnaði í sarpinn þar til hún var komin með nokkuð skýra hugmynd um hvernig hún vildi hafa þetta. „Þá kom til mín kona sem sagðist vilja stofna félag, nú væri ár liðið frá því að sonur hennar hefði dáið, en á aðfangadag var hann að búa sig undir að fara í sparifötin og fór í jólabaðið þar sem hann fékk hjartastopp og lést nokkrum dögum síðar. Við getum ekki ímyndað okkur þann sársauka enda er jólamánuðurinn alltaf erfiður tími fyrir fjölskylduna.

Nú eru tvö ár liðin síðan hún kom til mín og hrinti öllu af stað. Síðan hefur þetta þróast og hugmyndin hefur vaxið þar til þetta varð niðurstaðan; að stofna landssamtök foreldra sem hafa misst börn í skyndilegu dauðsfalli. Þar sem meðgöngutíminn hefur verið langur og góður þá hefur þetta allt smollið saman áreynslulaust í undirbúningi síðustu vikna, sem sýnir kannski líka hversu mikil þörf er fyrir samtök sem þessi. Fólk í þessum sporum hefur samband við mig víða að af landinu og það virðast margir vilja stökkva á þetta með okkur.“

Sárið grær aldrei

Sveinbjörn grípur orðið: „Ef þú færð þær fréttir að barnið þitt sé með sjúkdóm sem getur dregið það til dauða þá hefur þú undirbúning. Þú talar við fjölskylduna, lækni, prest eða hvern þann sem þú vilt að sé þér innan handar. En þegar þú færð þetta símtal þar sem þér er sagt að þú sjáir barnið þitt ekki lífs framar þá stendur þú allt í einu með hælana á bjargbrúninni og iljarnar fram af, það eru bara einhverjir millimetrar sem skilja á milli þess að þú hafir þetta af eða hrynjir gjörsamlega, og hvert áttu þá að leita?

Þá vona ég að þessi samtök verði vettvangur þar sem fólk finnur stuðning og getur átt samtöl við fólk sem býr að sömu reynslu. Ég get aldrei skilið sorg þeirra sem hér sitja til hlítar, vegna þess að hvert einasta dauðsfall er einstakt, en ég get leitast við að nálgast þeirra spor og við getum talað saman um sorgina. Í hvert sinn sem ég heyri af dauðsfalli þar sem foreldrar missa börn skyndilega þá blæðir úr sári mínu. Sárið grær aldrei. Það sest yfir það hrúður en það er auðvelt að krafsa í það,“ segir Sveinbjörn sem missti son sinn fyrir 32 árum. „Hann væri 41 árs í dag.

Þetta er alltaf sárt. Ég fékk bara símtal og get rakið hvert augnablik frá því að ég fékk símtalið og í klukkutíma, einn og hálfan á eftir. Þá datt ég út. Eftir það þarf ég stuðning við að reyna að muna – ef ég vil muna.“

Sveinbjörn segir þá að það hafi verið mikils virði að þegar þau voru tilbúin til þess þá fóru þau austur á Kirkjubæjarklaustur og skoðuðu slysstaðinn. „Skrýtið að þú segir þetta,“ segir Pétur, „því við fórum til Spánar á útsýnisstað þar sem dóttir okkar dó, hálfu ári seinna, með átján rauðar rósir og dreifðum þar yfir.“

Barnsmissirinn breytti öllu

„Svona reynsla hefur algjörlega umbreytandi áhrif á fólk,“ segir séra Lena Rós og hin eru því sammála, barnsmissirinn breytti öllu. „Þennan dag færðust verðmiðar til,“ segir Sveinbjörn. „Það sem ég taldi áður til verðmæta varð hismi í mínum huga og það sem hafði áður skipt mig minna máli varð að verðmætum,“ segir hann.

Ásrún tekur orðið og segir: „Maður glímdi við ýmislegt sem maður hélt að væru vandamál. En ég sé núna að það skiptir engu máli. Níu mánuðum áður en við misstum son okkar þá lést annar drengur á leikskólanum hans í slysi sem varð við rólurnar. Fjórum dögum eftir að Kristófer minn dó fengum við senda skreytingu og henni fylgdi samúðarkveðja frá móður þessa drengs. Í því ástandi sem við vorum, að reyna að þrauka hvern dag, hjálpaði það okkur ótrúlega mikið að vita að níu mánuðum síðar væri hún að senda bréf, að hún væri yfirhöfuð á lífi og hefði komist þetta langt,“ segir hún og segist stundum verða hissa þegar hún hugsar um að það hafi ekki þurft að vista hana á geðdeild eftir þessa reynslu.

„Þetta er kjarnorkusprengja sem varpað er í líf þitt. Og radíusinn er tugir manna sem verða fyrir áfalli, fjölskylda, vinir og vandamenn. Höggið er svakalegt,“ segir Pétur. „Ég get líka orðað það sem Sveinbjörn sagði um breytt verðmætamat aðeins öðruvísi. Kærleikurinn sem var í manni og er í flestum mönnum hrundi fram hjá mér. Ég vil bara láta gott af mér leiða, það er ekki hræsni, mig langar bara til þess.“

Missti barn á meðgöngu

Upphaflega hafði séra Lena Rós hugsað sér að mynda félagsskap foreldra sem hafa misst börn sviplega en hópurinn stækkaði hratt. Það varð ljóst að þörfin var mikil. „Þaðan erum við komin hingað í dag þar sem við sitjum með fólki sem hefur boðist til þess að taka sæti í stjórninni. Ég verð ekki í stjórn, ég á ekki þessa reynslu að missa barn skyndilega. En ég missti reyndar frumburð minn á miðri meðgöngu. En það er önnur saga og annars eðlis en þetta.

En okkar tillaga er að fyrsti formaðurinn verði af landsbyggðinni sem er yfirlýsing um að þetta sé ekki eitthvað höfuðborgarpúkk, þetta er fyrir allt landið. Þar ætlum við líka að fá til liðs við okkur prest sem hefur þessa reynslu og getur verið til staðar. Að auki ætla þessi samtök að leggja sig fram um að vera með hvíldarhelgi með fræðslu og endurnærandi hvíld fyrir foreldra,“ segir hún og hrærir í tebollanum sem stendur á borðinu fyrir framan hana. „Það er líka rétt að taka það fram að það er vilji samtakanna að starfa náið með Nýrri dögun, samtökum sem hafa unnið gríðarlega gott starf og fagna 25 ára starfsafmæli núna um helgina.“

Þurftu að læra að lifa upp á nýtt

Ásrún Harðardóttir og Konráð Halldór Konráðsson misstu son sinn, Kristófer Alexander, 5. mars í fyrra. Hann var á sjötta ári og lést af slysförum í sveitinni hjá ömmu sinni. Þeir höfðu farið þangað saman feðgarnir, til þess að aðstoða við búskapinn.

„Bóndinn var ekki heima þannig að mamma var ein með búið. Ég fór því vestur á föstudeginum og Kristófer kom með mér. Á laugardeginum kom dóttir mín úr fyrra sambandi líka en ellefu ára dóttir okkar Ásrúnar var lasin þannig að þær mæðgur voru heima. Bræður mínir tveir komu líka við hjá mömmu á laugardeginum og sá elsti var ekki löngu farinn þegar við fórum í fjósið um kvöldið.

Þar fór ég niður í mjaltabásinn á meðan krakkarnir voru að þvælast um fjósið. Mamma sagði syni mínum að vara sig á stiganum, því það vantaði á hann handriðið og hann svaraði um hæl og sagði að hann vissi vel hvað væri hættulegt þarna, enda hálfpartinn alinn upp í sveitinni og þekkti sig vel í fjósinu. En ég var nýkominn ofan í mjaltabásinn þegar ég heyrði hátt hljóð sem ég hef aldrei heyrt, hvorki fyrr né síðar, og rauk upp úr básnum og yfir í þann hluta fjóssins þar sem geldneytin voru. Þá hafði hann farið í öxul af flórsköfu og var látinn.“

Flórskafan var tekin út af vinnueftirlitinu og samkvæmt öllu hefði hún átt að vera hundrað prósent örugg, það var næsta ómögulegt fyrir lítið barn að komast þar að. „Hann hefur verið að teygja sig eftir kettinum og farið þarna ofan í. Ég reif hann úr tækinu og þegar ég fékk hann í hendurnar fann ég að hann var farinn. Hann fór mjög illa og það hvarflaði ekki að mér að reyna endurlífgun,“ segir Konráð sem hefur starfað með slökkviliðinu og björgunarsveitinni.

Dóttir mín bjargaði mér

Tíminn var lengi að líða þar til presturinn kom, lögreglan, og læknir úr Borgarnesi sem úrskurðaði Kristófer látinn á staðnum og sjúkraflutningamenn sem fluttu hann suður. En Konráð er þeim afar þakklátur. „Þetta voru þvílíkar hetjur sem stóðu með mér í þessu öllu og þegar ég var við að brotna náðu þeir alltaf að grípa mig.

Á meðan ég beið eftir þeim þá hljóp ég fram og til baka, fram til dóttur minnar sem var inni í mjólkurhúsi og inn til sonar míns sem var látinn. Ég varð að vera á báðum stöðum en ég veit ekki hvernig þetta hefði verið ef dóttir mín hefði ekki verið þarna hjá mér. Hún bjargaði mér, hélt mér uppi, því ég þurfti að vera til staðar fyrir hana. Ég bað bræður mína svo um að koma svo ég gæti farið í bæinn, ég gat ekki skilið mömmu eina eftir, og sagði þeim hvað hefði gerst. Ég var spurður hvort ég vildi að prestur færi heim til þess að tilkynna konunni minni og dóttur þetta en mér fannst það ekki hægt, ég varð að gera það sjálfur.

Þegar ég hugsa um það, þá hefði ég ekki viljað vera annars staðar þegar þetta gerðist. Af tvennu illu hefði ég frekar viljað vera þarna heldur en að fá símtalið. En það er mjög erfiður hluti af þessu og ég þarf að glíma við þessa mynd í vöku og svefni. Í hvert sinn sem hún kemur upp þá fer ég í gegnum alla hugsunina, slysið allt og enda síðan á einni minningu sem ég deili ekki með neinum en er góð og hrein og falleg. Ég reyni að enda alltaf á þessu góða, það hjálpar mér.

Það er asnalegt að segja að maður sé þakklátur fyrir eitthvað í þessu samhengi. En ég er þakklátur fyrir að hafa komist af í fjósinu og heim.“

„Er hann dáinn?“

Eins og gefur að skilja var Konráð í losti og hugsaði ekki skýrt. „Ég ætlaði að keyra sjálfur suður til þess að ég hefði bílinn hjá mér. Sem betur fer talaði lögreglan mig ofan af því og keyrði mig heim. Reyndar þurftum við að byrja á því að aka prestinum af Borg á Mýrum heim og sækja sjúkrahúsprest í bænum þannig að það leið langur tími þar til við vorum komin heim. Ég var búin að hugsa með mér hvernig það yrði og þegar við vorum að keyra niður götuna heima spurði ég lögreglumanninn hvort hann treysti sér til þess að koma með mér inn. Hann gerði það og við fórum upp.“

Ásrún segir að hún hafi séð lögreglubílinn fyrir utan en það hvarflaði ekki að henni eitt augnablik að lögreglan ætti erindi við hana. „Ég man bara að dyrabjallan hringdi og Konni sagðist vera kominn heim með gesti. Þeir komu upp og stelpan var háskælandi. Ég man ekki alveg hvernig þetta var en ég man að presturinn sagði eitthvað og ég heyrði sjálfa mig alltaf og endalaust spyrja: „Ertu að segja mér að hann sé dáinn? Er hann dáinn?“ Hún kemur hundrað og milljón sinnum upp í huga minn, þessi spurning.

Ég grét ekkert svakalega mikið, jú, auðvitað grét ég, en það var eins ég færi út úr líkamanum og fór að hjálpa stelpunum. Við þurftum að kalla út lækni fyrir eldri dóttur hans því hún var alveg í losti. Seinna sagði yngri stelpan okkur frá því að hún hefði verið alveg komin að því að springa en hún hefði haldið aftur á sér til þess að auka ekki á erfiðleika okkar.

Ég hringdi í mömmu og skellti þessu bara á hana. Seinna komst ég að því að pabbi var ekki heima en sem betur fer var systir mín hjá henni og gat gripið hana. Svo man ég eiginlega ekkert. Við sváfum ekkert næstu nætur og á endanum vorum við orðin stjörf af þreytu og fengum svefnlyf. Vikuna fram að jarðarför var ég bara dofin, við vorum lengi að tengjast okkur sjálfum aftur.“

Enn dofin

Morguninn eftir var bíllinn í stæðinu fyrir utan og lyklarnir í póstkassanum, lögreglan kom honum til skila. „Ástandið var svakalegt inni á heimilinu. Fyrstu dagarnir voru í algjöru blakkáti, við vissum ekkert hvað við vorum að gera. Það var svo margt sem við þurftum að sinna, velja mynd með dánartilkynningunni, kistu og taka á móti stöðugum straumi af gestum.

Við borðuðum ekkert. Það eina sem við gátum komið ofan í okkur þessar fyrstu vikur var orkudrykkur. Það síðasta sem ég hugsaði um var matur,“ segir Konráð og Ásrún tekur undir. „Þú finnur ekkert, hvort þú ert svöng eða þyrst, eða hvort þér sé heitt eða kalt eða hvort þú sért með vöðvabólgu eða höfuðverk. Ég fann ekkert,“ segir hún og Konráð segist hafa verið algjörlega dofinn. „Það tók að minnsta kosti mánuð að fjara út,“ segir hann. „Ég er enn dofin,“ segir Ásrún og Konráð tekur undir það.

„Eftir þrjá daga var heimilið okkar búið að vera fullt af grátandi fullorðnu fólki,“ segir Ásrún, „og allt í einu fattaði ég að dóttir mín hafði verið eina barnið innan um allt þetta fólk og bað mágkonu mína að koma með dætur sínar næsta dag. Þá fóru þær þrjár inn í herbergi að spjalla saman.“

Róaðist við niðurstöðuna

Konráð segir að sem betur fer kunni fáir að takast á við svona aðstæður. „Ættingjarnir leituðu ráða hjá presti sem hjálpaði þeim. Á tímabili fundum við að við vorum vöktuð, við vorum aldrei skilin ein eftir.

Barnsmóðir mín var með okkur í öllu. Í kistulagningunni var enginn nema við hjónin, eldri dóttir okkar og móðir hennar. Við vildum bara að stelpan fengi þann stuðning sem hún þurfti á að halda.“

Um hálfum mánuði síðar sneri Konráð aftur til vinnu. „Ég vildi mæta strákunum og vinnunni.

Fljótlega eftir að ég fór aftur að vinna fékk ég mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég hefði ekki reynt endurlífgun. Sem er skrýtið miðað við hvernig hann var farinn eftir slysið.

Þannig að ég rauk niður á bráðamóttöku og talaði við lækni, því það getur tekið allt að ár að fá niðurstöður úr krufningu, og ég varð að vita þetta. En þar fékk ég að heyra að miðað við áverkana þá hefði ekki verið hægt að hjálpa honum. En það dugði ekki til að kveða niður þessar tilfinningar. Það tókst ekki fyrr en ég fékk niðurstöðuna og fékk að vita að hann hálsbrotnaði og dó samstundis. Auk þess missti hann svo mikið blóð að þegar ég tók hann upp blæddi ekki lengur úr honum.“

Læra á lífið upp á nýtt

„Þetta stóra ef,“ segir Konráð, „það fór í gegnum allan hópinn hjá okkur. Bróðir minn ásakaði sjálfan sig fyrir að hafa farið vestur í Hólminn í staðinn fyrir að hjálpa okkur í fjósinu. Hann er með bú fyrir vestan og varð að fara þangað. Dóttir mín fékk þá hugsun að hún hefði átt að passa hann. Hann var alinn upp þarna í fjósinu og hún var ekki fengin vestur til þess að passa. En þetta fékk ég að heyra í áfallahjálpinni.

Eftir svona áfall lærir maður á lífið upp á nýtt. Það eru þúsund hlutir sem maður þarf að takast á við. Ein spurningin sem þarf að svara er hvað eigi að gera við herbergið hans, dótið hans. Þessar spurningar eru endalausar. Við ákváðum að fara í gegnum þetta á okkar forsendum og á okkar hraða. Við höfum ekki tekið neinar endanlegar ákvarðanir og eigum afturkvæmt með allt. Við tókum herbergið hans niður og settum fötin ofan í kassa inni í geymslu þannig að ef okkur langar til þess að sjá þetta aftur þá er þetta allt til. Við erum ekki í neinu ástandi til þess að taka þessar ákvarðanir.“

Þerraði tár foreldra sinna

Þau hjónin voru strax staðráðin í því að þiggja alla þá hjálp sem þeim bauðst. „Við erum meðal annars í sorgarhópum,“ segir Ásrún. „Það var ótrúlega gott að hitta fólk sem er sama marki brennt. Þess vegna vonumst við til að geta hjálpað öðrum. Ég held að það séu margir sem hafa ekki fengið viðeigandi aðstoð við að vinna úr áfallinu. Það eru ekkert svo mörg ár síðan fólk missti barnið sitt í slysi og var sent með leigubíl heim af spítalanum. Sama ár og Kristófer dó lést lítil stelpa af slysförum og ég veit að foreldrum hennar var ekki boðin áfallahjálp. Mér finnst það skylda samfélagsins að veita þessu fólki áfallahjálp því ég finn hvað það hefur mikið að segja,“ segir Ásrún.

Engu að síður er sorgin enn til staðar og það koma dagar þar sem hún tekur völdin. „Á hverjum degi er maður að vinna með eitthvað, koma á nýja staði sem minna á. Hátíðisdagar eru erfiðir og afmælisdagar. Ég finn þetta byggjast upp inni í mér,“ segir Konráð, „og á endanum brotnar maður.

Við erum farin að þekkja þetta ferli. Ásrún sér oft hvað er að gerast hjá mér áður en ég hef áttað mig á því sjálfur og svo öfugt. Það er eins með dóttur okkar, við vitum nánast upp á hár hvenær hún springur þótt það geti tekið marga daga að gerast. Þá býr hún til spennu til þess að geta losað um.

Þetta hefur haft gríðarlega mikil áhrif á þær systur. Þær eru mikið þroskaðri en jafnaldrar þeirra því þær vita að lífið er ekki svona einfalt, þær vita hvað getur gerst og það veldur kvíða.

En þær hafa staðið sig ótrúlega vel. Yngri stelpan okkar sat á milli okkar í jarðarförinni og þurrkaði tárin sem runnu niður kinnarnar á okkur. Hún er algjör hetja. Fyrir hana höldum við áfram.“

Tíminn læknar ekki neitt

Sveinbjörn Bjarnason missti níu ára son sinn, Sveinbjörn, af slysförum árið 1980. Nú eru 32 ár liðin síðan en Sveinbjörn segir að sársaukinn fylgi honum alltaf. „Ég var búinn að vera í safnaðarstarfi í nokkuð mörg ár og þetta haust var ákveðið að fara í safnaðarferð austur á Kirkjubæjarklaustur. Ég var þá í rannsóknarlögreglu ríkisins og átti helgarvakt þannig að ég varð eftir heima en konan mín fór með syni okkar. Þennan laugardagsmorgun ók ég þeim í rútuna og fékk svo útkall þannig að ég varð að fara en allt í einu kom upp í huga minn að ég yrði að fara aftur og athuga hvort ég næði þeim því mér fannst ég ekki hafa kvatt strákinn nógu vel. Ég náði þeim ekki, eðlilega, því það var drjúgur tími liðinn.

Á sunnudeginum vorum við í hádegismat hjá foreldrum mínum, ég og synir mínir þrír, sautján ára, fimmtán ára og fjögurra mánaða. Þá hringdi síminn og pabbi rétti mér tólið með þeim orðum að Kirkjubæjarklaustur þurfi að tala við mig. Þá var það góður vinur minn sem sagðist þurfa að færa mér hroðaleg tíðindi, sonur minn hefði farið ásamt fleirum upp með Systrafossi og hrapað niður í fjallinu. Þetta var ekkert lengra en það en ég man þessi orð og ég heyri röddina. Síðan vannst dagurinn einhvern veginn, pabbi tók að sér að hringja í þá sem við þurftum að láta vita, systur mína og fjölskyldu konunnar sem var öll á Akureyri.

Um kvöldið komu þau í bæinn og ég tók á móti konunni sem kom með rútunni en lögreglan á Hvolsvelli flutti líkið af syni mínum í bæinn og við fórum niður á spítala til þess að kveðja hann.“

Hætti í lögreglunni

Næstu dagar á eftir liðu og Sveinbjörn var í hálfgerðu meðvitundarleysi. „Ég hef oft sagt við fólk að vikan fram að jarðarför er erfið en það er svo mikið að gera, kerfið leggur svo margt á okkur sem er nánast ómennskt. Við þurfum að snúast með pappíra hér og hvar, dánarskýrslur og hvaðeina, en daginn eftir jarðarförina þá byrjar hversdagurinn hjá öllum öðrum en þér.

Þá stendur þú einn eftir og þá er gott að eiga vini. Þeir eru aldrei betri en einmitt þarna – koma við, jafnvel eftir að hafa komið við í bakaríinu og keypt eitthvað með morgunkaffinu, og setjast svo niður við morgunkaffi og spjall. Við fengum þann stuðning frá systrum mínum og foreldrum og það var ómetanlegt. Það var ekki búið að finna upp áfallahjálp árið 1980 og en fjölskyldan hjálpaði okkur í gegnum þetta. Trúin hjálpaði okkur líka.“

Sveinbjörn sneri nánast strax aftur til vinnu en eins og fyrr segir þá starfaði hann sem rannsóknarlögreglumaður í tæknideild lögreglunnar. „Ég hélt það ekki út nema í nokkra mánuði. Þetta gerðist í ágúst og ég var hættur í maí. Í starfi mínu varð ég að fara á staði þar sem slys höfðu orðið, taka þar myndir og í mörgum tilfellum tilkynna um niðurstöður og ég gat það ekki. Ég var farinn að kvíða því á hverjum einasta morgni að fara til vinnu og vonaði að ég kæmi aldrei að slysinu þar sem barnið lægi. Ég gat ekki höndlað það, því miður segi ég því þetta var góður vinnustaður.“

Aldrei samur aftur

„En þegar lokast dyr þá opnast gluggi,“ segir Sveinbjörn. „Þá færðu ný tækifæri. Það var búið að blunda í mér frá því að ég var ungur maður að fara í guðfræðinám og það gerði ég árið 1993. Mig langaði til þess að læra meira um trúna og jafnvel að miðla minni reynslu af þessu slysi í gegnum trúna á Guð. Vegna þess að brákaðan reyrinn brýtur hann ekki, dapran hörkveik slekkur hann ekki. Þótt við bognum þá brotnum við ekki. Ljósið dofnar en það slokknar ekki. Þarna erum við alveg örugg, í trúnni. En það að missa barnið sitt er svo sérstakt að þú verður aldrei samur aftur.

Ég átti þrjá stráka. Þeir elstu muna bróður sinn mjög vel en sá yngsti hefur engar forsendur til þess. En þótt hann hafi ekki verið nema fjögurra mánaða þegar bróðir hans féll frá þá var búið að taka mynd af þeim þar sem bróðir hans situr með hann í fanginu. Sú mynd er honum mjög dýrmæt, hún tengir þá saman.

Fyrir vikið var hann lengi vel ofverndaður, í raun og veru allt of lengi. Hann var mikið með okkur og í kringum okkur, hann var ekki farinn að ganga þegar hann var farinn að fara með okkur út í kirkjugarð og vökva sumarblómin. Þannig varð líka náin tenging á milli þeirra.“

Sjálfur finnur Sveinbjörn líka alltaf sterka tengingu við son sinn, þótt hann sé látinn finnur hann fyrir honum í kringum sig og veit að hann er hjá sér. „Bara fyrir fáum nóttum fann ég fyrir honum uppi í rúmi á milli okkar hjóna. Þá hrökk ég upp og sá að hann var ekki þar. Ég stóð upp til þess að athuga hvort hann hefði farið fram. Þetta var svo raunverulegt. Hann er þarna, hann er ekkert úti í kirkjugarði. Þar er bara minningarreiturinn um hann og það er gott að eiga minnisvarða. En hann er hér hjá mér og ég gæti vel trúað að hann væri hér á meðal okkar núna.“

Hann er enn hluti af fjölskyldunni

Hann segir að á stofuborðinu sé einnig mynd af Sveinbirni og kertaljós sem logar gjarna. Þau hjónin tala mikið um soninn sem þau misstu, bæði sín á milli og við börnin og barnabörnin. „Ég stend mig oft að því að hugsa enn um hann sem barn en auðvitað veit ég betur. Ég veit að hann hefur þroskast, ég veit að hann leggur mér oft lið, ég finn fyrir nærveru hans.

Eftir á að hyggja þá var hann mikill heimspekingur í sér, rólegur og yfirvegaður. Hann þurfti óskaplega mikið að spyrja um allt og ef maður setti út á það svaraði hann því alltaf til að ef maður spyrði ekki þá vissi maður ekki.

Okkur tókst ágætlega að vinna úr þessu en það er lífstíðarverkefni, því lýkur aldrei. Margir segja að tíminn lækni öll sár en tíminn læknar ekki neitt. Hann hjálpar þér að lifa við breytta heimsmynd en hann læknar ekki neitt. Annars hjálpar það mér líka að hugsa um hann eins og hann sé enn hjá mér. Við eigum allar minningarnar um hann og mikið af dótinu hans ennþá, bíla sem hann gerði úr legókubbum og skóladótið hans. Þannig að hann er enn til staðar og er hluti af okkar lífi. Það skiptir öllu máli. Við getum ekki afskrifað þessi börn, útilokað þau úr lífi okkar. Hann er jafn mikill hluti af fjölskyldunni núna og áður, en hann er ekki sýnilegur og hann kemur ekki aftur, ekki þannig, en ég tala oft við hann.“

Óttaðist að missa það góða sem hann hafði

Margrét Erla Benónýsdóttir missti son sinn, Sigurbjörn Guðna Sigurgeirsson, árið 2003 þegar hann svipti sig lífi 22 ára gamall. „Hann hafði lagt ríka áherslu á að allur vinahópurinn færi saman út á föstudagskvöldi og náði öllum saman nema einum, af því að það hentaði ekki kærustunni hans. Sonur minn var svo miður sín yfir því að hann fór að tala við hana og það endaði með því að þau fóru öll saman út. Hann fór að heiman um miðnætti og kvaddi mig og systur sína mjög vel. Hann var vanur því að kveðja vel en gerði það sérstaklega vel þetta kvöld, ég sá það eftir á.

Morguninn eftir var hann ekki enn kominn heim. Svo líður að hádegi og ég heyri ekkert. Eftir hádegið fer systir hans að spyrja hvort ég ætli ekki að hringja en ég svara því til að hann sé nú orðinn 22 ára gamall og það sé tímabært að klippa aðeins á naflastrenginn. Ég hélt að hann hefði kannski náð sér í stelpu og gist þar.

Ég man allan daginn. Við settum Queen á og þrifum alla íbúðina, við mæðgurnar. Hún hélt áfram að spyrja hvort ég ætlaði ekki að hringja en ég vildi leyfa honum að njóta þess aðeins að vera frjáls,“ segir Margrét og andvarpar. „Mamma kom svo til mín í mat en hún bjó í sömu götu. Hún spyr hvar hann sé og við komum með afsakanir fyrir hann og ég held áfram að tala um að hann sé nú orðinn fullorðinn maður. Svo hringir vinur hans og spyr hvort hann sé ekki vaknaður, hann hafi keyrt hann heim um nóttina. Á endanum fékk ég þessa sterku tilfinningu um að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Við ákváðum að fara að leita að honum. Þannig að ég fór heim með mömmu og kom henni í rúmið.“

Vildi ekki vekja mömmu

Bílskúr móður hennar hafði verið hálfgerð félagsmiðstöð fyrir krakkana, strákarnir höfðu mikinn áhuga á bílum og bassaboxum og þess háttar, þannig að tveir vinir hans fóru þangað. „Annar þeirra hringdi í mig og hann þurfti ekkert að segja. Hann sagði að þeir væru búnir að finna hann og ég heyrði hinn hrópa á bakvið. Þá sagði hann að þeir væru að hringja í neyðarlínuna og ég sagðist vera á leiðinni.

Á þessum tíma var heilsan mín þannig að ég var nýstigin upp úr hjólastól, var á spelkum og átti að vera með hækjur. Ég hef aldrei skilið hvernig mér tókst að ganga yfir, hvorki með spelkurnar né hækjurnar. Ég man bara að ég kom og tók utan um strákana, sagði að þeir færu ekki neitt því ég vildi ekki missa þá út í myrkrið. Ég ákvað að fara ekki inn í bílskúrinn því ég hélt að hann væri löngu farinn, hann hefði farið um nóttina. Ég heyrði í sírenunum í fjarska og dóttir mín, sem hafði farið út í sjoppu, kom þarna að og áttaði sig strax á því hvað væri í gangi. Hún hneig niður við næsta húsvegg og ég sagði henni að vera þar.

Svo komu sjúkrabílarnir, lögreglan og prestur. Þeir vildu fara inn en ég vildi ekki vekja mömmu, ég vildi bara fara heim til mín. En þeir fóru með mig inn og þar þurfti ég að hafa uppi á föður hans.

Svo þurfti ég segja syni mínum þetta. Hann var með fyrstu pabbahelgina sína og ég vildi ekki segja honum þetta í gegnum símann. Hann vissi greinilega að það væri eitthvað mikið að því hann hringdi látlaust. Ég fór með lögreglunni til hans og á leiðinni hringdi ég í tvær vinkonur mínar, önnur fór til móður minnar og hin var mér innan handar.“

Brutu ísinn

Sonur hennar sá strax hvaða fréttir hún hafði að færa þegar þangað var komið. „Hann vissi það um leið og hann sá mig koma í lögreglufylgd. Við hringdum í barnsmóður hans sem sótti barnið og svo fórum við í það að láta alla vita, hvað hefði gerst. Það var okkur svo mikilvægt að koma fréttunum út.

Við vorum nýkomin heim þegar sjúkraflutningsmenn og læknir komu með þær fréttir að það hefði ekki verið hægt að bjarga honum. Ég varð svo undrandi á að þeim hefði dottið það í hug. Síðan tók doðinn við. Þetta var svakalegt. Hann lét eftir sig fjögurra ára dreng sem sá það þannig að hann ætti flottasta engilinn á himnum.

En ég man að sumir vissu ekki hvernig þeir ættu að bregðast við. Syni mínum vantaði jakkaföt. Honum fannst hann ekki getað jarðað bróður sinn nema hann fengi jakkaföt. Hann er næstum því tveir metrar á hæð og það getur verið erfitt að finna á hann föt. En við lögðum af stað í leiðangur, ég ásamt honum og systur hans, við vorum alltaf þrjú saman. Þá mættum við fólki sem tók sveig fram hjá okkur og ætlaði ekki að heilsa. En við gengum á eftir því og heilsuðum, sögðum að við værum í því að brjóta ísinn og það vorum við. Við tókum á móti stöðugum straumi af gestum.“

Eineltið braut hann niður

Sigurbjörn varð fyrir einelti í gagnfræðaskóla sem markaði hann mjög. „Það á sinn þátt í því sem gerðist. Það braut hann alveg niður. En það var ekki bara það, eineltið eitt og sér. Hann var búinn að vera þunglyndur og hann var búinn að fá hjálp. Við, og þá á ég við mig og systkini hans, töldum að allt væri komið í góðan farveg, það væri allt orðið ægilega fínt. En eftir á að hyggja þá sá ég að hann hafði tekið þá ákvörðun tveimur árum áður að eiga þessa leið út. Það var eins og hann hefði ákveðið að ef eitthvað myndi bresta þá myndi hann fara þessa leið og hann vissi hvernig hann færi að því, hann hafði bílinn og bílskúrinn.

Hann sendi vinum sínum SMS og kvaddi þá. Sagði: Þú ert frábær vinur. Verð í bandi. Það að hann ætlaði að vera í bandi gerði það að verkum að það hringdi enginn til baka. Það var hans trygging. Hann ætlaði að klára þetta. Hann var svo hræddur um að missa það góða. Hann lenti í alvarlegu einelti og gafst upp.

Eitt af því sem hann óttaðist var framtíðin. Hann var kominn með vinahópinn, námið sem honum langaði í, en hann varð að hætta í skóla vegna eineltisins, og allt virtist vera að þróast í rétta átt. Þetta yndislega var allt komið en hann óttaðist að missa það aftur. Það var aðallega það sem skein í gegnum bréfið frá honum.“

Reiðin stóð stutt

Margrét ákvað að fara í gegnum sorgarferlið á sínum hraða. „Ég vildi ekki pressa neitt í gegn, bara láta þetta koma, halda höfði og vera til staðar. En ég leitaði mér alltaf hjálpar, fór til prests, sálfræðings og geðlæknis. Ég var búin að missa heilsuna og hafði tvö börn sem ég varð að styðja og stóran vinahóp og það bjargaði mér. Mamma gat ekki sætt sig við þetta, fór í afneitun og ákvað að hann hefði ekki framið sjálfsvíg og ég leyfði henni bara að halda það.“

Stundum er talað um að reiði og skömm geti fylgt aðstandendum þeirra sem fremja sjálfsvíg. Margrét segir að í hennar huga skipti það engu máli hvernig sonur hennar lést. „Hann er alltaf jafn mikið farinn, hann kemur ekkert aftur, hvernig sem hann fór. Reiðin kom mjög snöggt og stóð stutt yfir. Það gerðist þegar ég fékk stund til þess að kveðja hann ein í kapellunni. Þá lá hann í kistunni og virtist vera brosandi. Þá hellti ég mér yfir hann en svo fann ég að ég gat ekki verið reið út í hann.

Þetta hefur algjörlega markerað okkar líf. Þegar símtalið kom þá gerðist eitthvað og síðan hef ég aldrei upplifað neina tilfinningu sem kemst í hálfkvist við þetta. Eitthvað gerðist við það símtal og eftir það hefur aldrei neitt verið jafn gleðilegt eða jafn sorglegt á þeim mælikvarða.

Ég er búin að missa báða foreldra mína og ég missti bróður minn af slysförum þegar við vorum börn. Þannig að ég þekki það að lifa í skugga einhvers sem er látinn. Ef ég fékk níu þá var mamma sannfærð um að hann hefði fengið tíu. Það hvarflaði aldrei að neinum að hann hefði mögulega getað vaxið upp og haft einhverja bresti. Þannig að það var mér mikið kappsmál að fara ekki þá leið.“

Til þess að heiðra minningu Sigurbjörns heldur fjölskyldan alltaf upp á afmælisdaginn hans, þann 1. desember. „Þá hittumst við alltaf og borðum annað hvort pizzu eða hamborgara honum til heiðurs. Svo er ég með mynd af honum heima þar sem ég kveiki á kerti og set ákveðna tónlist ef ég er döpur og þarf að gráta. Þá fæ ég útrás. Ég er alltaf að vinna með sjálfa mig, þessu verkefni verður aldrei lokið.“

Það var rifinn hluti úr hjarta mínu

Pétur Emilsson missti dóttur sína, Stefaníu Guðrúnu Pétursdóttur, árið 2003. Hún var átján ára gömul og lést af slysförum á Spáni. Pétur er sá síðasti í þessum hópi til þess að deila reynslu sinni en hann hefur hlýtt á hina og segir að það sé átakanlegt að heyra sögur þeirra. „Ég heyri ekkann sem liggur undir niðri og sé hvað þörfin er sterk. Sársaukinn er djúpur og mikill. En það var gott að heyra þessar sögur og samverkunin er nánast algjör. Það bætist alltaf við þroskann og reynsluna. Það er það sem samtökin eiga að gera, opna á fólk, því annars verður þetta eins og snjóbolti. Sársaukinn er alltaf í hjartanu og ef snjóboltinn þiðnar aldrei getur hann valdið jarðskjálfta.“

Til þess að vinna úr eigin sorg stofnuðu þau hjónin minningarsjóð í nafni Stefaníu. „Það veitti okkur gleði að geta hjálpað öðrum og það gaf okkur styrk að geta nýtt okkar reynslu til þess.

Sjóðurinn er sá eini sinnar tegundar hér á landi en hann á að hjálpa foreldrum sem hafa misst börn með sviplegum hætti. Sem er nákvæmlega sami tilgangur og þessara samtaka og því er ég hér,“ segir Pétur en sjóðurinn hefur meðal annars greitt fyrir hvíldarhelgar fyrir aðstandendur og eftirmeðferð. „Þá skiptir engu máli hversu langt er liðið frá andlátinu, bara hver þarf hjálp. Þetta var okkar leið til þess að vinna úr sorginni.“

Raunveruleikinn var svakalegur

Pétur var á ráðstefnu í Bandaríkjunum þegar hann vaknaði upp við símann. „Síminn hringdi klukkan þrjú að næturlagi og þá vissi ég að eitthvað var að. Þegar mamma dó var hringt klukkan sex að morgni. Þannig að ég vissi um leið og síminn hringdi að eitthvað var að. Ég svaraði og Edda var grátandi í símanum. Hún þorði ekki annað en að hringja því þetta fréttist svo hratt. Ég man bara að ég henti símanum á gólfið og svona eins og maður segir; öskraði.

Ég lifði nóttina af með því að slá hausnum í vegginn þar til morgunverðarborðið opnaði klukkan sjö. Ég var orðinn blóðugur á enninu en ég varð að halda haus, ég fann brestinn, ég fann að ég var að klikkast. Það var rifinn hluti úr hjarta mínu. En ég lifði nóttina af og fékk svo hjálp.

Ég fór niður í morgunverðarborðið og féll þar saman. Þarna var maður frá FBI sem var mikill reynslubolti og bjargaði mér, gaf mér róandi og síðan var mér skutlað út á flugvöll. Þar fór ég á barinn og þjónninn var minn sálfræðingur, ég talaði og talaði, svona var áfallið mikið. Síðan var mér hent inn á Saga-Class og vafinn í teppi. Það var allt gert fyrir mann.“

Næstu daga var eins og hann væri undir áhrifum deyfilyfja. „Fram að jarðarförinni, á meðan á jarðarförinni stóð og svo tók raunveruleikinn við og hann var svakalegur. Við dóum í tvö ár, hreinlega andlegum dauða. Við unnum ekki í þennan tíma og þurftum svefntöflur til þess að sofa, ég í hálft ár og konan mín þarf stundum enn á þeim að halda.

Maður á ekki að loka sig inni, það er sálrænt glapræði. Þess vegna erum við að koma fram og opna á umræðuna. Sumir segja: „Hvað eruð þið að garfa í sálarlífi fólks?“ en mér er nákvæmlega sama, ég veit að við getum hjálpað.“

Útsýnispallurinn gaf sig

Stefanía var átján ára þegar hún lést. Hún var með vinkonum sínum úti á Spáni að skemmta sér. „Slysið átti sér stað hálftíma áður en rútan fór af stað út á flugvöll. Hún var á leiðinni heim en áður ætlaði hún að kveðja kærastann. Þau fóru út á útsýnispall sem er mikið notaður af Spánverjum, klifruðu yfir girðingu og yfir á pallinn. Það var gríðarlega fallegt útsýni þarna og þau voru bara í rómantíkinni, búin að vera að skemmta sér um nóttina og það var vín í þeim öllum. Þar föðmuðust þau og kysstust og sneru svo við, hann fór á undan henni upp og hún ætlaði á eftir honum en festi skóinn einhvern veginn. Hún var há og grönn og á hælaháum skóm og ætlaði að styðja hægri fætinum aftur á pallinn og bakkaði aðeins en pallurinn réði ekki við jafnvægið og gaf sig.

Hann horfði á hana hrapa, heyrði hvissið og svo lagðist þögnin yfir. Þið getið rétt ímyndað ykkur áfallið sem hann varð fyrir, hann hljóp bara fram og til baka. Ræðismaður Íslands á Spáni bjargaði lífi hans. Hann var sendur í yfirheyrslu hjá lögreglunni en losnaði mjög fljótt. Hann var samt svo hræddur við að koma heim til okkar, það kvaldi hann svo mikið að ímynda sér hvað við hjónin værum mögulega að hugsa.

Við tókum vel á móti honum og héldum stóra samkomu heima þar sem hann talaði ásamt stjúpföður sínum. Það var rosalegt að hlusta á það. Hann þarf að lifa með þessu eins og við og það er mikill vinskapur okkar á milli. Við höfum einnig haldið sambandi við allar stelpurnar, vinkonur hennar eru eins og dætur okkar í dag.“

Styrkti sambandið

Á hverju ári koma þau saman að lágmarki tvisvar sinnum og halda Stefaníukvöld. „Við gerum þetta alltaf í kringum afmælisdaginn hennar, þann 23. október, og þetta verður svona ævilangt. Mér finnst það mjög gott. Þá sitjum við saman heila kvöldstund og grátum og ræðum málin.

Þetta hafði mikil áhrif á okkur öll. MS-sjúkdómurinn hafði legið leynt í Ósk, dóttur minni og læknarnir hafa staðfest það við mig að hann komi stundum fram við mikil áföll. Í dag er hún á sterkustu lyfjunum og verður aldrei söm.

Stefanía var einkabarn okkar Eddu en ég á einnig þrjú stjúpbörn. Ég lít á þau sem börnin mín því ég ól þau upp. Við höfum staðið þétt saman og þótt þau hafi lítið viljað ræða þetta þá hefur þetta styrkt samband okkar.“

Fyrir nokkrum árum gaf fjölskyldan út geisladisk og rann ágóði sölu hans í minningarsjóðinn. „Við vorum tvo sólarhringa að velja löginn á diskinn og grétum og hlógum á víxl.

Nú stefnum við á að halda tónleika með þessum listamönnum í vor. Það er verið að vinna á öllum stöðum. Ég segi að þeir sem þiggja, þeir fá gjöf en þeir sem gefa, þeir fá enn stærri gjöf. En ég held að ég verði að láta þetta duga áður en ég fer að gráta,“ segir Pétur og sýpur á kaffinu.

Ákváðu að lifa

Eftir smá stund heldur hann hins vegar áfram og segir frá því hvernig hann fann styrkinn á ný að þessum tveimur árum liðnum. „Við tókum ákvörðun um að lifa lífinu. Við vorum oft mjög döpur og oft litum við ekki glaðan dag. Þetta var rosalega sárt. Áfallið var yfirgengilegt.

En eftir að við tókum ákvörðun um að stofna minningarsjóð og vinna úr þessu á jákvæðan hátt þá fór lífið aftur í jákvæðan farveg. Við ætlum að hjálpa eins mörgum og við getum og til þess að finna fólkið sem þarf á aðstoðinni að halda störfum við með prestum.

Svo hefur náttúran, heilagur andi, eða hvað sem fólk vill kalla það, sinn gang og vinnur á sínum hraða. Við fengum tækifæri til þess að takast á við lífið þegar við vorum tilbúin til þess. Eins og núna. Við hjónin höfðum verið að ræða það að við vildum gjarnan gera meira þegar þetta kom upp. Það var eins og þetta kæmi af himnum ofan,“ segir Pétur sem segist hafa sína trú.

Það hjálpar honum að tengjast Stefaníu. „Ég trúi á æðra líf og trúi því að sálin yfirgefi líkamann. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Mér finnst þetta falleg setning sem segir allt sem segja þarf. Við höfum fundið fyrir Stefaníu hér.“

Scroll to Top