Fræðsla
Missir
Okkar saga er svona!
Jón Ævar Ármannsson
fd. 22. Febrúar 1997 – dd. 3. janúar 2007.
Aðfangadagur 24 desember 2006.
Undirbúningur jólanna hófst í aðventu og var mikil spenna hjá 9 ára dreng að undirbúa jólin skreyta sem mest og hafa allt flott, og daginn fyrir aðfangadag var mikil spenna því að á morgun væru jólin og allt skyldi vera fallegt og klárt.
Jólasveinninn hann Kertasníkir gaf alltaf pakka í skóinn á aðfangadag og snemma var vaknað þennan morgun til að athuga með skóinn og í þetta skiptið voru tvær talstöðvar í pakkanum frá sveinka og gleðin var ótrúleg óskin rættist, og sveinki las óskina í bréfinu frá stráksa. Milli tólf og hálf eitt fór stráksi í jólasturtuna sína til að vera hreinn og strokinn og klár í sparifötum þegar að hátíðin gengi í garð. En á örfáum mínútum breyttist allt! Systur hans biðu í stofunni á neðri hæðinni á meðan að bróðir þeirra var að þvo sér og eftir nokkra stund tóku þær eftir því að það var byrjað að dropa niður úr loftinu frá baðherberginu, drengurinn okkar var á floti, á hvolfi, andlitið í vatninu, í sturtuklefanum sem hafði fyllst af vatni þar sem líflaus líkaminn hans lá og ekkert lífsmark…
Pabbi hans tók hann hratt og öruggt upp úr lagði hann á gólfið og byrjar endurlífgun, ég móðirin hringi í neyðarlínu og yngri systir hans hleypur yfir til nágrannans sem er Slysavarnarfulltrúi og hún kemur hlaupandi og aðstoðar pabbann og í raun tekur yfir og tekur við.
Á einu augnabliki er allt heimilið orðið yfirfullt af fólki, lögreglumönnum, og bráðaliðum á sjúkrabílum.
Saman tekst þeim að koma hjarta drengsins aftur í gang og hann var borin niður á stofugólf og settur á börur og út í sjúkrabíl, við foreldrarnar förum hér út á pall og beint í lögreglubíl og á eftir sjúkrabílnum niður á Hringbraut LSH Sjúkrahús. Þar tók á móti okkur hjúkrunarfólk sem var yndislegt og hugaði vel að okkur og það var hringt í séra Pálma Matthíasson prestinn okkar sem mætti eins og skot og sat með okkur og beið. Á meðan að á þessu gekk öllu saman áttum við tvær dætur sem við skildum við hér heima, hvar voru þær og hver hugsaði um þær?
Við fengum svo sem litlar upplýsingar um það, því miður. Þarna hefðum við hjónin viljað hafa með okkur einn aðila einn tengilið sem uppfræddi okkur um stöðuna td. Drengurinn okkar er færður upp á Gjörgæsluna á Hringbrautinni sem er í gömlu álmunni og þangað löbbum við og þar tekur við önnur bið á stofu með prestinum, þögnin er þrúgandi og tíminn er kyrr. Síðan kemur læknir og ræðir við okkur og útskýrir fyrir okkur stöðuna og þeir hafi borað í höfuð hans til að setja þrýstingsmælir og að við megum nú sjá hann áður en hann verði svo fluttur frá þeim niður í Fossvog á gjörgæsluna, en þar eru þeir með kælivél sem hann verður settur í, honum verður haldið sofandi og kældur til að vernda heilann. Við ákveðum að taka mynd af honum á símann okkar til að sýna systrum hans til að útskýra betur fyrir þeim hvernig hann er nú svo þeim líka bregði ekki eins mikið þegar þær fá að sjá hann. Nú megum við fara heim og við verðum látin vita hvenær hann verði fluttur og hvernig staðan verði. Við hjónin löbbum út með séra Pálma sem þurfti að yfirgefa okkur vegna aftansöngs jóla í Bústaðarkirkju, þarna stöndum við því ein og yfirgefin og vitum ekki neitt í okkar haus og vitum ekki einu sinni hvernig við eigum að komast heim til dætra okkar sem biðu í óvissu líka. Aftur þarna hefðum við viljað tengilið sem hefði séð um að hringja í einhvern og láta sækja okkur. Við hringjum í nágrannann, mann slysavarnarfulltrúans, og hann kemur og sækir okkur og fræðir okkur um stöðu mála og það komi tryggingarfulltrúi/tjónamaður og meti stöðuna á eigninni okkar og að dætur okkar séu í góðum höndum á þeirra heimili með þeirra börnum.
Hvað nú ? Hvað gerum við ?
Við settumst niður með þeim sómahjónum sem ræddu við okkur og spjölluðu, það var fyrsta áfallahjálpin okkar, og það frá nágrönnum okkar sem við getum fullseint þakkað fyrir alla þá aðstoð sem þau veittu okkur, stelpurnar okkar höfðu verið í góðum höndum hjá þeim á meðan að við vorum í burtu og voru búnar að baða sig og klæða sig í sparifötin. Við fórum yfir í íbúðina okkar og metum vegsummerkin þar sem vatnið flæddi frá baðherberginu á efri hæðinni og niður á neðri hæðina, þar höfðu nágrannar okkar og móðuramma barnanna tekið sér tíma frá sínu jólahaldi í að hugsa um allt fyrir okkur og þá meinum við allt, það var búið að þrífa upp alla bleytuna og gera eins fínt og mögulegt var og það verður okkur ómetanlegt alla tíð, við kveikjum aftur á ofninum þar sem jólamaturinn var komin í ofninn og klárum að elda hann, en öllu rafmagni var slegið af íbúðinni vegna vatnsins, eitthvað þurftum við jú að borða þótt svo að matarlistin væri ekki mikil eftir svona mikla rússibanaferð tilfinninga, móðir mín, móðuramma þeirra sem býr í næsta húsi og er alltaf með okkur á jólunum hafði tekið að sér að bíða með hundinum okkar eftir að við kæmum til baka, hún var í sama áfalli og við en saman tókst okkur að ljúka þessum örlagaríka degi með dætrum okkar.
Og um kvöldið fórum við á Gjörgæsluna í Fossvoginum og sáum drenginn okkar, bróðir þeirra systra og amman barnabarnið sitt, hann var komin í kælivélina og haldið sofandi og tengdur allskonar slöngum og dóti sem flestum fullorðnum bregður við að sjá og hvað þá börnum sem eru 11 ára og 13 ára. Núna tóku við tíu langir dagar þar sem beðið var í mikilli óvissu um það hvort að drengurinn hefði þessa þrekraun af, en því miður þá reyndist þetta vera of mikið fyrir elsku drenginn okkar sem kvaddi þennan heim á endanum 3.janúar 2007.
Það var engin hjálp í sjálfu sér í boði né stuðningur fyrir okkur og dætur okkar á meðan á þessum tíma stóð. Og við hjónin tókum þá ákvörðun um að ganga frá honum sjálf fyrir kistulagningu og hafa dætur okkar með í ráðum með það í hvaða fötum hann væri og hvað færi með honum í kistuna því að við hefðum bara þetta eina tækifæri til að kveðja hann og hafa þetta eins og við vildum. Og eftir kistulagningu og jarðaför tók við rútínan á ný, stelpurnar í skólann og vinnan hjá eiginmanninum. Ég móðirin var frekar leitandi eftir stuðningi og hjálp og það sem ég fann var litlirenglar.is en fannst ég ekki þar inn vegna þess að það var meira vegna fósturláta og ungabörn, og mér fannst ég ekki heldur passa inn í sorgarhópinn Ný Dögun.
Svo ég fór að fara til Sr. Lenu Rós Matthíasdóttur í Grafarvogskirkju í viðtöl og bar þetta einmitt upp við hana að ég fyndi mig hvergi í sorginni í sorgarhóp, og að mig Lísebet Unnur langaði gjarnan að fá meiri aðstoð bæði fyrir okkur hjónin og dætur okkur til að tala um sorgina og fá hjálpina sem virtist ekki vera til staðar og ekki vera í boði nein staðar. Þannig að í sameiningu ákváðum við Lena að setja okkur í sambandi við Sr. Vigfús Bjarna sjúkrahúsprest og fengum hann til liðs við okkur og Lena Rós lagðist yfir að kynna sér efni fyrir sorgarhópa og úrvinnslu og þannig varð það úr að fyrsti Sorgarhópurinn í Grafarvogi varð til og mynduðust góð tengsli milli þeirra foreldra sem voru saman í sorginni yfir skyndidauða barna sinna.
Svo þegar leið á sorgarferlið hjá mér langaði mig að fara með þetta enn lengra og stofnaði hóp á Facebook í samráði við Lenu Rós og þannig varð til síðan Verndarengillinn, og síðan settum við okkur í samband við Pétur Emilsson og ræddum þá hugmynd að fara með þetta enn lengra og stofna eitthvað til að hjálpa foreldrum sem voru í sömu sporum og við í sorginni og söknuði yfir missi barna okkar, sem myndi vera til staðar og styrkja og hughreysta foreldra og aðstandendur, s.s systkyni, ömmur og afa og aðra ættingja sem ekki síður syrgja látna barnið með okkur.
Og þannig var blaðið brotið og ramminn kominn og svo tóku þau Lena Rós og Pétur og fleira gott fólk við og úr varð að stofnfundur samtakanna var stofnaður í Grafarvogskirkju og fólk var beðið um að skrifa niður á miða tillögur að nafni á samtökunum og varð þetta fallega nafn Birta fyrir valinu.
Og nú í dag eru Landssamtök Birtu til með góðu fólki í stjórn og vonumst við til að það eflist og stækki og dafni farsællega og verði öflugra í að styðja og hjálpa leitandi foreldrum og aðstandendum í sorg sinni sem vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér. Því andlega og líkamlega er maður ekki í standi til að hugsa eftir jarðaför barnsins sins og því væri bæklingur Birtusamtakanna sem stendur til að búa til og afhenda þegar andlát barns ber að þegar um hægist og tími gefst til að hugsa að þá er bæklingurinn einmitt til staðar og mun klárlega vera aðstandendum Birta í dimmunni og sorginni.