Aðalfundur landssamtaka foreldra sem hafa misst börn eða ungmenni skyndilega verður haldinn í Grafarvogskirkju á laugardag. Starfandi formaður samtakanna missti son sinn fyrir 34 árum þegar áfallahjálp var ekki til í þeirri mynd sem hún er í dag. Tilgangur samtakanna er að standa fyrir fræðslu og viðburðum til sjálfstyrkingar fyrir syrgjandi foreldra og aðstandendur, en prestur við Grafarvogskirkju hafði í starfi sínu fundi þörf fyrir slík samtök.
„Fyrir 34 árum, í ágúst 1980, misstum við hjónin 9 ára son okkar af slysförum. Á þeim tíma var ekkert til sem heitir áfallahjálp í þeirri mynd sem hún er í dag og fólk þurfti allt að því bara að bíta á jaxlinn og fara í gegnum þetta með styrk hvers annars,“ segir Sveinbjörn Bjarnason, starfandi formaður Birtu, landssamtaka foreldra sem hafa misst börn/ungmenni skyndilega. Þau fengu vissulega styrk víða að, meðal annars frá kirkjunni. „Við fórum í gegnum sorgarferlið með sonum okkar þremur sem við áttum að auki. Þetta verður samt aldrei búið og það er aldrei búið að vinna úr þessu. Þegar maður veit að þarna úti er fullt af fólki sem hefur verið í svipuðum sporum og maður sjálfur þá er það sjálfsagður hlutur, og hreinlega skylda manns finnst mér, að leggja þessu fólki lið,“ segir Sveinbjörn.
Þriðji aðalfundur Birtu verður á morgun, laugardaginn 26. apríl, í Grafarvogskirkju klukkan 16 en samtökin voru stofnuð á aðventunni árið 2012. „Það kom okkur á óvart að á annað hundrað manns hafi mætt á stofnfundinn og sýnir það hversu brýn þörfin er. Þarna kom fólk sem hafði glímt við sinn missi jafnvel áratugum saman en aldrei getað talað um hann og deilt reynslu sinni og sorg,“ segir Sveinbjörn.
Samtökin voru stofnuð í framhaldi af vinnu séra Lenu Rósar Matthíasdóttur, prests við Grafarvogskirkju og Péturs Emilssonar sem missti átján ára dóttur sína í slysi á Spáni árið 2003, Stefaníu Guðrúnu. Séra Lena hafði í starfi sínu fundið þörf fyrir vettvang þar sem aðstandendur barna sem höfðu fallið skyndilega frá gætu komið saman. Tilgangur samtakanna er að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu, til sjálfstyrkingar fyrir syrgjandi foreldra og fjölskyldur þeirra. Auk þess er ætlunin að gefa syrgjandi aðstandendum tækifæri til að komast að heiman um stund til að hvíla hugann og segir Sveinbjörn að hugmyndin sé að aðstoða fólk við að komast að í orlofshúsum.
Sveinbjörn tekur fram að Birta eru ekki einu samtökin sem starfa á svipuðum vettvangi, árið 1987 voru stofnuð samtökin Ný dögun en forveri þeirra voru samtökin Sorg og sorgarviðbrögð, auk þess sem Samhygð er starfandi á Akureyri. Það sem greinir Birtu frá er áhersla á foreldra sem missa börn sín skyndilega.
Sveinbjörn telur afar mikilvægt að fólk geti leitað til samtakanna og fengið þar styrk. „Ég get hins vegar aldrei sett mig í spor annarra syrgjenda. Ég get aðeins sett mig að þeirra sporum því þau eru sérstök og einstök. Með mína reynslu get ég kannski verið örlítið nær þeim en hvert mál er einstakt og allir atburðir í kringum það eru einstakir. Ég tek líka fram að ég er ekkert aðalatriði í þessu öllu heldur eru það samtökin og það sem þau standa fyrir,“ segir hann.
Fréttatíminn 25. apríl 2014
Erla Hlynsdóttir